Sumarbuðir

Dagur 2 í Ölveri

Það var ræs kl.08:30 í morgun og stúlkurnar voru hressar og spenntar að fá að takast á við daginn. Að morgunverði loknum var fánahylling og svo biblíulestur. Að honum loknum var stúlkunum skipt í brennólið og keppni hafin í brennibolta.
Í hádegismatinn var ljúffengt snitsel með brúnni sósu og kartöflumús og borðuðu stúlkurnar flestar mjög vel. Eftir hádegismat fórum við í nokkuð langa göngu og þær sem treystu sér til (sem voru flestar) fóru hálfa leið upp á fjall eitt hér í grenndinni. Stúlkurnar voru mjög duglegar og þótti okkur mikið til þeirra koma þar sem þær klifu brattann og minntu þær helst á fjörugar fjallageitur þarna í fjallshlíðinni. Það var þó gott að koma aftur inn í hlýjuna og bragða á kökum og brauðbollum sem biðu okkar í kaffinu. Eftir kaffi var stúlkunum boðið að fara í heita pottinn og skola af sér skítinn í sturtunni.
Seinni part dags kepptu stúlkurnar svo sín á milli í köngulóarhlaupi og hoppi á ,,einari“.
Kvöldvaka kvöldsins var í boði Fjallavers og Lindavers og virtust allir skemmta sér vel yfir frábærum leikritum og skemmtilegum leikjum. Það eru sáttir en þreyttir kollar sem halla sér á koddana í kvöld.
Takk fyrir daginn,
Lella forstöðukona

Opnunartími:
Mán. – Fimmt. 9:00 – 16:00

Fðst.  9:00 – 15:00

Símanúmer: (354) 588 8899
Netfáng: kfum@kfum.is 

Heimilisfáng: Holtavegi 28 , 104 reykjavik

© KFUM OG KFUK Á ÍSLANDI 2024

Kt:690169-0889