Sumarbuðir

3. flokkur – 2. dagur

Þær voru ferskar stúlkurnar sem vöknuðu í morgun og tilbúnar í nýjan dag á Hólavatni. Hefðbundin morgundagskrá hófst klukkan níu með fánahyllingu, morgunmat og morgunstund með fallegum stúlknasöng. Veður er stillt þrátt fyrir smáskúri inn á milli og hefur dagurinn því verið vel nýttur utan dyra sem innan. Eltingarleikurinn stratego, bátar, vatnabusl, vatnakúla, körfubolti, málning, vinabönd og perl er meðal þess sem stúlkurnar stunduðu í dag. Einnig tóku margar þátt í póstkassaverkefni Eyjafjarðar og skreyttu póstkassa Hólavatns með blómaperlum sem þær hönnuðu sjálfar. Það er mismunandi hvað hentar hverri og einni stúlku. Sumar una sér vel á bátum og í busli á meðan öðrum finnst gaman að dúllast í perli og vinaböndum og keppumst við eftir því hér að allir fái að njóta sín. Í kvöld verður kvöldvaka að hætti Hólavatns og fá þá stúlkurnar tækifæri til að sýna leikþætti sem þær æfðu í dag. Eftir kvöldvöku er stefnt á ævintýraleik og að baka brauð á priki yfir varðeld.

kveðja

Sólveig Reynisdóttir

forstöðukona

Opnunartími:
Mán. – Fimmt. 9:00 – 16:00

Fðst.  9:00 – 15:00

Símanúmer: (354) 588 8899
Netfáng: kfum@kfum.is 

Heimilisfáng: Holtavegi 28 , 104 reykjavik

© KFUM OG KFUK Á ÍSLANDI 2024

Kt:690169-0889